Hugmyndafræði
Í Hjallatúni er starfað útfrá Fjölgreindarkenningunni. Sálfræðingur að nafni Howard Gardner setti fram kenningu um fjölgreindir árið 1983. Kjarninn í kenningu hans er að hægt sé að meta mannlega möguleika og hæfileika útfrá breiðara viðmiði en áður hafði verið gert. Hann flokkaði því greind manna í 8 flokka:
Málgreind - Rökgreind - Rýmisgreind - Hreyfigreind - Tónlistargreind - Sjálfsþekkingar/Tilfinningagreind - Samskiptagreind- Umhverfisgreind.
Á hverju vori metum við sterkar hliðar barnanna með hliðsjón af Fjölgreindarkenningunni og kynnum fyrir foreldrum í foreldrasamtölum.
Þrjú lykilatriði í uppeldisstefnu Hjallatúns.
Að efla tilfinningagreind barna.
Við leggjum sérstaka áherslu á að efla tilfinningagreind barna. Við leitumst við að gefa hverju einstöku barni tíma, hlusta á þau og ræða um líðan þeirra ásamt því að leggja sérstaka áherslu á nærveru, umhyggju og hlýju í leikskólastarfinu.
Einstaklingum með góða tilfinningargreind líður betur og geta stjórnað tilfinningum sínum í stað þess að láta tilfinningarnar stjórna sér.
Að kenna börnunum lýðræði, efla frumkvæði þeirra og styrkja sjálfsmynd.
Við teljum að börn eigi rétt á að taka þátt í ákvörðunum sem varða þeirra eigið líf. Með því að taka þátt í ákvörðunum lærir barnið lýðræði. Á Hjallatúni getur barnið að miklu leyti skipulagt leik sinn sjálft og á þann hátt haft mikil áhrif á daglegt líf sitt í leikskólanum. Með þessu lærir barnið að taka sjálfstæðar ákvarðanir sem vekur hjá því frumkvæði, ánægju og gleði og styrkir sjálfsmynd þess.
Að nota leikinn sem helstu náms og þroskaleið barnins.
Leikurinn er mikilvægasta náms- og þroskaleið leikskólabarnsins og í honum felst mikið sjálfsnám. Þegar börn leika sér eru þau að þroska með sér margvíslega hæfileika. Barn sem er að leika sér í hlutverkaleik ( mömmuleik ) er til dæmis að æfa sig í samskiptum og efla félagsleg tengsl og barn sem er í fjörugum Tarzan leik í sal er að styrkja bein og vöðva.
Kannanir sem gerðar hafa verið meðal barna sýna, að börn telja sig fá of lítinn tíma og ekki nægan frið til leikja. Á Hjallatúni hlúum við vel að leiknum og forðumst allt óþarfa skipulag sem annars myndi trufla leikinn.