Karellen

Yfirumsjón - sérfræðiþjónusta
Málefni leikskóla heyra undir Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar. Fræðsluráð hefur umsjón með málefnum leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla í umboði bæjarstjórnar.
Fræðslustjóri er Helgi Arnarson. Leikskólafulltrúi er Ingibjörg Hilmarsdóttir. Börn í leikskólum Reykjanesbæjar hafa aðgang að sérfræðiaðstoð á vegum skólaskrifstofu Á hennar vegum eru starfandi talmeinafræðingur og sálfræðingar.
Sími á skólaskrifstofu er 421 - 6700.

Fatnaður
Mikilvægt er að allur fatnaður barnanna sé vel merktur. Mörg börn ganga um leikskólann dag hvern og alltaf er hætta á að fatnaður týnist. Einnig er mikilvægt að klæðnaður hefti ekki barn í leikgleði sinni. Í leikskólum er unnið með fjölbreyttan efnivið því getur málning, lím og fleira farið í fatnað barnanna þó starfsfólk leiti allra leiða til að það gerist ekki. Nauðsynlegt er að aukafatnaður sé í tösku barnanna ef óvænt slys verða. Mikilvægt er að börnin hafi með sér hlýjan fatnað, regnfatnað, stígvél, húfu og vettlinga í tösku vegna síbreytilegrar veðráttu hér á landi.

Óhöpp, slys og veikindi
Slasist barn í leikskólanum og talin er þörf á aðstoð læknis er haft samband við foreldra, einnig ef barn veikist í leikskólanum. Ef ekki næst í foreldra fer starfsfólk með barnið á slysamóttöku HSS. Börn í leikskólum Reykjanesbæjar eru slysatryggð á meðan þau dvelja í leikskólanum.

Lyfjagjöf
Í flestum leikskólum eru einhver börn sem þurfa að taka inn lyf á meðan þau dvelja í leikskólanum. Börnin skulu ekki fá önnur lyf en þau sem læknir hefur ávísað á þau. Ef nauðsyn er á lyfjagjöf í leikskólanum skulu foreldrar fylla út sérstakt eyðublað hjá deildarstjóra. Lyf eru geymd í læstri hirslu í leikskólanum. Lyfjagjöf í leikskóla er alltaf neyðarúrræði ef því verður komið við skulu foreldrar gefa lyfin heima.

Viðtalstímar
Viðtalstímar við starfsfólks leikskólans eru eftir samkomulagi. Ef foreldrar hafa einhverjar spurningar eða hafa þörf á að ræða við starfsfólkið er það að sjálfsögðu alltaf til taks. Gott er að panta viðtalið með nokkurra daga fyrirvara.

Fjarvistir barna
Vinsamlegast látið starfsfólk leikskólans vita ef barn er veikt eða í fríi.

Breytt heimilisfang – breyting á högum
Mikilvægt er að foreldrar tilkynni breytt heimilisfang og símanúmer heima og í vinnu. Einnig biðjum við foreldra að láta vita um stórvægilegar breytingar á högum fjölskyldunnar t.d. við skilnað, andlát eða alvarleg veikindi. Gott upplýsingastreymi gerir okkur kleyft að veita barninu réttan stuðning við ákveðnar aðstæður.

Persónulega hirslan
Hvert barn á sína persónulegu hirslu í leikskólanum þar sem geymd eru verk barnsins og aðrir hlutir sem tilheyra barninu. Foreldrar eru hvattir til að líta í skúffur barnanna og tæma þær reglulega.


Afmælis- og kveðjuveislur
Þegar börnin eiga afmæli fá þau að vera barn dagsins.Þau setjast í afmælisstól, velja leiki, eru aðstoðarmenn og fá að velja sér disk í matartímanum.Þegar barn hættir í leikskólanum er kveðjustund þar sem barnið er kvatt með fallegum orðum og söng. Þegar börn útskrifast úr leikskólanum er sérstök hátíð haldin þar sem börnin eru kvödd með kveðjukorti.


Leikföng að heiman
Ekki er leyfilegt að börnin komi með leikföng að heiman í leikskólann. Við gerðum tilraun með það að leyfa börnunum að taka með sér lítinn hlut sem þeim þótti vænt um með sér í leikskólann t.d. bangsa, dúkku, bók eða lítinn bíl. En því miður fór það út í það að börnin höfðu sum hver með sér leikföng daglega og mörg hver verðmæt og börnunum mjög hjartfólgin. Þetta skapaði deilur barnanna á milli og oft á tíðum vanlíðan hjá einstaka barni. Einnig skapaðist mikið álag á starfsfólk sem oft á tíðum þurfti að leita um allan skólann eftir týndu leikfangi í lok dagsins. Börn í aðlögun mega koma með tengihlut þ.e. bangsa, teppi bleiu eða eitthvað slíkt, það hjálpar litlu krílunum í aðlöguninni. Í leikskólanum er fjölbreyttur efniviður sem á að geta fullnægt þörfum barnahópsins.


Hverjir mega koma með/sækja börnin í leikskólann.

Í fyrsta samtali er skráð niður samkvæmt upplýsingum foreldra hverjir mega sækja börnin. Ef aðrir en þessir eiga að sækja börnin skulu foreldrar gefa munnlegt leyfi fyrir því. Ef einhver annar kemur og ætlar að sækja barn án leyfis foreldra skal hringt í þá og leitað upplýsinga. Barn er aldrei afhent aðila sem virðist undir áhrifum lyfja eða áfengis, í slíkum tilfellum er haft samband við barnaverndaryfirvöld.Ekki er leyfilegt að börn undir 12 ára aldri komi með eða sæki barnið.Varast skal að gera það að reglu að systkini komi með eða sæki barnið.


Skipulagsdagar
Skipulagsdagar eru fimm sinnum á ári og eru auglýstir með mánaðar fyrirvara. Þeir eru nýttir til faglegrar samvinnu og endurskipulagningar starfsins.


Starfsmannafundir
Fimm starfsmannafundir eru yfir árið og eru þeir frá kl. 8.00 - 10.00/14.00 - 16.00 og er leikskólinn lokaður á meðan. Börnin mæta kl. 10.00 þessa daga. Fundirnir eru á skóladagatali og er þeir líka auglýstir með góðum fyrirvara.


© 2016 - 2023 Karellen